Um hátíðina

Kammertónleikar á Kirkjubæjarklaustri buðu upp á þrenna tónleika með klassískri tónlist, ókeypis tónlistarsmiðju fyrir börn og stuðlaði að nýsköpun í tónlist með því að fá eitt tónskáld á hverju ári til að semja nýtt verk til frumflutnings á hátíðinni.

 

Kammertónleikar á Kirkjubæjarklaustri voru stofnaðir árið 1991 að frumkvæði Eddu Erlendsdóttur, píanóleikara, sem var listrænn stjórnandi tónleikanna frá upphafi þangað til Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir, mezzósópransöngkona, tók við kyndlinum árið 2006. Hátíðin á ýmsa fastagesti og dregur að tónlistaráhugafólk víðsvegar að, sem kemur á Kirkjubæjarklaustur til að njóta þar tónlistar og náttúrufegurðar undir lok sumarsins.

 

Á annað hundrað tónlistarmanna, íslenskra sem erlendra, hafa komið fram á hátíðinni síðan hún var fyrst haldin, helgina 16. – 18. ágúst árið 1991. Á henni hafa ýmis ný tónverk verið frumflutt og hafa margir af tónleikunum í gegnum árin verið teknir upp af Ríkisútvarpinu. Menningarmálanefnd Skaftárhrepps stendur fyrir hátíðinni.

 

Listrænn stjórnandi: Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir

Formaður Menningarmálanefndar Skaftárhrepps: Þuríður Helga Benediktsdóttir

 

Staðartónskáld:

 

Hildigunnur Rúnarsdóttir, árið 2016

Páll Ragnar Pálsson, árið 2015

Þóra Marteinsdóttir, árið 2014

Bára Grímsdóttir, árið 2013

Kjartan Sveinsson, árið 2012

Haukur Tómasson, árið 2011

Daníel Bjarnason, árið 2010

Guðmundur Óli Sigurgeirsson, árið 2009

Hugi Guðmundsson, árið 2007